Sjónvarp versnandi fer
Núna áðan varð ég vitni að einhverju lélegasta sjónvarpsefni sem ég hef séð um ævina. Þátturinn virðist ekki hafa neinn tilgang og ég ekki viss hvort þetta er keppni eða hvað. Þátturinn heitir Temptation Island. Í aðalhlutverki eru 4 pör sem eru aðskilin í tvær vikur á eyju í karabiskahafinu. Á meðan við fylgjumst með í gegnum auga myndavélarinnar á að reyna á hvort pörin geta verið trú hvort öðru i sambandi sínu í tvær heilar vikur. Til að gera þetta svo meira „spennandi“ er fengið fólk sem hefur það eitt að markmiði að draga aðalkarakterana á tálar(það sem meistari Jay Leno réttilega kallar hórur).
Ég spyr: Hver er tilgangurinn? Eru einhver verðlaun? Fyrir hvað þá? Hvernig vinnur maður? Með því að halda ekki fram hjá? Það er ekkert mál. Ég hef gert það lengi og það án þess að fá borgað. Málið hlýtur að vera eitthvað annað. Það er nokkuð ljóst. Ég meina hversu sjúkt er að borga einhverjum fyrir að vera trúr manneskjunni sem viðkomandi elskar. Þetta er svona týpiskur þáttur sem á að hneyksla fólk en hvern er verið að hneyksla? Ekki mig! Mér finnst þetta í mesta lagi hallærislegt og ég held að það sé almennt viðhorf hjá mínum aldursflokki. Það eru nottla alltaf einhverjar fínar frúr í vesturbænum sem gætu hneykslast af þessháttar. En ég meina kannski hljómaði þetta eins og góð hugmynd á stjórnarfundinum hjá NBC eða ABC eða hverjum sem framleiðir þennan óhroða.
Að mínu mati er þetta sjónverpsefni í sama gæðflokki og breskur fræðsluþáttur um einkalíf hreyfihamlaðra flatlúsa á örvhentum einhleypum karlmanni sem hefur áhuga á listdansi á skautum. Þátturinn vekur kannski mikla athygli hjá kananum en eins og við öll vitum er greindarvísitala meðal Kanans ekki mikið hærri en skónúmerið hans og ég hef alla trú á að þetta sjónvarpsdrasl fái ekki áhorf hér á landi á við sjónvarpsþætti sem eru með söguþráð eða að minsta kosti eitthvert vitrænt umfjöllunarefni og konsept.
Annars er mér sossum sama hvað þeir sýna í sjónvarpinu. Enginn skyldar mig til að setjast niður fyrir framan sjónvarpið klukkan 8 á laugardagskvöldum og stilla á Skjá 1, og meðan svo er mega þeir sýna hvað sem er mín vegna. Það væri annars gaman að fá gamla Hemma Gunn þætti í loftið aftur. Ég skora hér með á einhverja sjónvarpsstöðina að byrja að sýna Hemma Gunn. Hver man ekki eftir ljúfum stundum fyrir framan skjáinn með allri fjölskyldunni að horfa á Hemma Gunn?
Ég held að ég sé búinn að koma á „blað“ flestum þeim tilfinningum sem kviknuðu við að horfa á þetta vitlausa fólk sem fékk ókeypis frí og tveggja vikna ferð til eyju í karíbahafinu með fríu fæði og húsnæði, og garanterað fullt af sjénsum. Nei þetta myndi ég sko aldrei gera!